laugardagur, mars 31, 2007

Húðflögur og vín

Þessa dagana er ég að tjasla saman mínum hluta í Bs. verkefninu mínu. Það er sosum sama sagan og alltaf, gerist hægt og ég fer að efast um eigið ágæti. Svo er Eva á Íslandi og því enginn til þess að stappa í mig stálinu.

Ég reyni því að finna upp á einhverju að gera utan íbúðarinnar á hverjum degi. Sú athöfn á að vera til þess fallin að hressa mig og kæta, örva hug og hlýja hjarta.

Um daginn var gott veður, þá þótti mér tilvalið að fara í sund, Österbro svömmehallen skyldi það vera. Ég hef ekkert sérstaklega góða reynslu af dönskum sundstöðum eftir að ég nýtti mánaðarkortið mitt við sundlaugina á Frankrigsgade. Ég var alltaf mettur eftir þær sundlaugaferðir, enda búinn að súpa á húðflögum gamalla karla við að synda kílómeter.

Hvað um það. Ég skellti mér í innisund enda veðrið frábært. Því næst kom ég við á hjá strákunum á La Fiorita því Österbro-laugin er mun þrifalegri en sú á Amager og kenndi ég því til hins venjulega eftirsundstaðahungurs. Ætiþistlapizza með chilli. Vinbörsen er mín búð, þar er besta kaffi í heiminum og það besta er að þegar þau hafa malað fyrir mig þá eltir lyktin af kaffinu mig alla leið heim þar sem hún læðist upp úr töskunni minni. Ég tyllti mér svo við Sortedamssö og lyktaði af töskunni minni og naut sólarinnar og valdi mér íbúð. Eftir að hafa komist að niðurstöðu og hafa reynt að meta eiginleika hverrar þeirrar sem ég rak augun í var ég orðinn svo ímyndunarveikur að mér fannst Eva vera úti á svölunum á einni þeirra. Ég spratt upp og rýndi, þetta var Eva. Hún sagðist hafa farið til Íslands! Ég ætlaði að hringja í hana og reyna að fá hana til að fletta ofan af sér, en mér datt ekkert trix í hug svo ég hringdi bara horfandi á konuna á svölunum. Ég var orðinn ímyndunarveikur.

Inni í safnarabúðinni þarna rétt hjá var skrýtið fólk, eins og er alltaf inni í slíkum búðum. Ég fann mér “Sketches of Spain”, og það er sko flott verk (eða tussufín plata). Ég nennti samt ekki heim strax þótt klukkan væri orðin eftirmiðdagur og ég ekki enn byrjaður á dagsverkinu. Ég mat það í huganum hvort ég ætti að rölta Dag Hammarskjölds-hringinn eða fara niður Classensgade og kannski koma við í Italiensk Vinhus (sem ég hef minnst á áður). Tók seinni kostinn. Guiseppe var að vinna eins og venjulega og aðeins kominn í’ða. Bonjorno! Bla bla bla, mussolini, bla bla bla, parmegiane, bla bla bla Amarone!! Ég skil hann aldrei en hann talar við mig ensku. Hann gaf mér að smakka á Amarone, held ég. Ég keypti af honum eina Chianti Classico ’99, hann fletti henni upp í 3 bókum fyrir mig til að fullvissa mig um gæði hennar eftir að ég spilaði leikinn og spurði hann hvort ’99 hefði verið gott ár fyrir Chianti.

Hann kvaddi mig með hálfvirði og einhverju sem þýddi endilega komdu aftur, ég er með nýtt vín að smakka í hverri viku, ég lauk við glas tvö og hélt heim á leið.

Eldaði mér pasta og drakk Chianti Classico ’99, alla, einn. Átti gott spjall við sjálfan mig til miðnættis er ég dó áfengisdauða í rúminu mínu.

Daginn eftir klæddi ég mig í nærbuxur, undir þeim, ofan á sokkunum mínum tjillaði massíft ofalinn silfurskottudjöfsi. Hún var á stærð við húslykil, ég kyrkti hana og drekkti, fékk mér kaffi og byrjaði að skrifa Bs. Ritgerð.

7 Comments:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Silfurskottur lifa á sveppagróðri ef ég man rétt, þessi virðist hafa fengið nóg að borða!!
OBE

01:38  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Húðflögur og silfurskottur,
góður titill á skáldverki!
Hlakka til að súpa á Chianti með
þér um páskana kæri bróðir.
Rína

13:12  
Blogger Eva Bjarnadóttir sagði...

haha! "Kona háir ímyndaða kosningabaráttu á svölum í Kaupmannahöfn". Væri alveg til í að hanga í sólinni á svölum í Köben núna. Ég myndi bjóða þér yfir í Chianti og niguragískt expresso.

21:02  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Hahaha! Fórstu í blakkát?

Ógeðisviðbjóður þessar silfurskottur og undirförlar.

21:08  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ahh..pínu trist að drepast áfengisdauða eftir fjörugt kvöld með sjálfum sér. Það verður gott og gaman að sjá þig!
Marta

21:36  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Var Hannibal kannski með í
Chiantidrykkjunni?
Anír

23:13  
Anonymous Nafnlaus sagði...

mér finnst þetta æðisleg djammlýsing, sakna þín ógurlega við að lesa þetta, enginn tekur stymma nema stymmi!

ps: þú hefur ekki farið inn í konuklefan, ég fór nefnilega inn í karlaklefann og i sturtuna, byrjuð að blanda og allt, erfið sundlaug österbrohallen:)

Hildur

19:04  

Skrifa ummæli

<< Home