Ég hef sagt þessa sögu áður
Eva kom út fyrir 10 dögum síðan og síðan þá hefur síðan verið vanrækt af mér. Við erum flutt á östbanegade 43 2,2. Tussufínt pleis og við rétt að koma okkur fyrir. Ég var ekki sérlega kunnugur hér á Österbro fyrr en nú en maður á ekkert erindi hingað nema maður búi hér. Íbúðin er sú besta sem ég hef búið í síðan ég flutti hingað og er ég feginn að vera farinn úr forstofuherberginu fyrir fullt og allt.
Síðan Eva kom hefur hún skráð sig inn í landið, opnað símreikning, bankareikning og talað dönsku. Allt þetta tók mig u.þ.b. ár að ná að gera. Ég bara meikaði ekki að fara hratt í sakirnar, varð bara hysterískur og svitnaði í lófunum. Það sem fór mest fyrir brjóstið á mér var að hún var komin með bókasafnsskírteini á aðalbókasafninu, bókasafn sem ég hafði aldrei komið inn í, eftir tveggja daga veru í stórborginni.
Við það að fylgjast með fyrstu skrefum ungrar Kaupmannahafnarstúdínu úr Hlíðunum fór ég að rifja upp hvernig þetta var hjá mér í byrjun. Við þessa upprifjun datt mér í hug dagbókarfærsla sem ég skrifaði fljótlega eftir að ég kom hingað út. Ég ætla að leyfa ykkur að lesa hvernig mér leið fyrstu dagana mína hér í Kjuben en fyrri hlutinn kemur núna og seinni á næstu dögum en svo að einhver nenni að lesa þetta verð ég að skipta þessu niður, værsogo!
Forsaga
Þegar ég flutti til Köben í haust bjó ég á Amager með Hauki, Öglu og stundum Guðmundu líka. Íbúðin var ekki stór en en það kom ekki að sök, nema þegar tími var kominn á að leggjast yfir skruddurnar. Yfirleitt reyndi ég að læra bara í skólanum en oftar en ekki var bókasafnið fullt og varð ég því frá að hverfa.
Ég hafði séð fallega byggingu, rétt hjá Langebro (brúin yfir á Amager), sem er kölluð Svarti demanturinn eða Det Kongelige Bibliotek. Þar skyldi ég aldeilis leita athvarfs ef CBS gæti ekki tekið á móti mér.
Ég hjólaði þangað í fallegri haustsólinni til að lesa kafla morgundaxins. Safnið var risastórt og flókið við fyrstu sýn. Ég þóttist þó vita hvar ég fyndi lestrarsal enda ratvís með eindæmum. Maður verður nú alltaf að spila sig kúl og spyrja ekki til vegar, þykjast vera innfæddur en ekki útfæddur, í gær.
Til hægri, svo vinstri, hægri aftur, upp rúllustiga og beint áfram. “Læsehal A, kun for brugere”. Þetta var eitthvað fyrir mig. Ég opnaði og gekk inn í stórann 200 ára gamlan sal sem lyktaði af þekkingu, gömlum bókum og kaffisvita. Mér leist vel á þetta, hér gæti ég sko gleymt mér í skólabókunum. Ég gekk inn í miðjan salinn, fann mér borð, tók af mér jakkann og hengdi á stólbakið, taskan fór á gólfið við hliðina á stólnum og ég tók upp bækurnar. Allt þetta gerði ég hljóðlega svo ég rifi ekki dauðaþögnina sem fyrir var. Ég var rétt byrjaður að strika undir í fyrstu línu er ég sá Birkenstock og rifflaðar flauelsbuxur koma skokkandi í áttina að mér. Þetta var bókavörðurinn. Með skokki sínu fékk hann allann salinn til að líta upp úr bókunum.
-“Það er stranglega bannað að vera með yfirhafnir og töskur hérna inni.” Hvæsti hann á mig, lafmóður eftir skokkið.
-“Uuuu.. önskjull”.
-” Þú þarft að fara héðan út og niður á fyrstu hæð, finna þér skáp og læsa dótið þar inni.” Alveg massapirraður.
Ég pakkaði saman, tók jakkann minn og strunsaði út með kökkinn í hálsinum. Allir í salnum gáfu mér pirringslegt augnaráð. Þetta var nú ekki svona á bókhlöðunni, huxaði ég með mér.
Ég rétt rataði aftur út úr byggingunni, fullur paranoju og fannst allir í byggingunni vita hversu vitlaus og óveraldarvanur ég væri. Þegar út kom sneri ég mér að innganginum og öskraði
“Ég kem aldrei hingað aftur!”, eða mig langaði til þess.
5 Comments:
Styrmir, það er mynd af þér í mogganum í dag þar sem þú horfir dreymhuga í átt til sólar. Ég vissi ekki að þú værir kominn í fyrirsætubransann!
KV OBE
koddu í kaffi á laundromat á österbro .
það er aðalkaffihúsið þar , sérstaklega þegar ég er að vinna.
annars kemur þetta hverfi mér á óvart .... innan um allar þessar ríku barnafjölskyldur leynast krimmar ...
ég segi þér það bara betur seinna. þori ekki að skrifa um þá hér á vefnum.
huldasif
Ég verð að koma út næsta sumar og kenna þér á lífið, en þá verður það eflaust of seint, þú kemur þá til með að kenna mér.
Til hamingju með nýju íbúðina á Österbro, mér leið vel þar þegar ég bjó þar, stutt á Parken og því tilvalið að skella sér á leik með FCköbenhavn, veit að Gummi myndi nenna með þér.
Og hver Raggie Smith......?
Marta-
Þú og ég, beygla stál, heima hjá mér, klukkan sex. Do it!
Skrifa ummæli
<< Home