þriðjudagur, október 10, 2006

II. hluti

Saga

Fimm mánuðum eftir S.D.[1]- áfallið eða fyrir viku síðan fann ég að ég var orðinn kúl. Þekki Köben betur en Vesturbæinn, panta kebab án þess að vera misskilinn og búinn að ná prófunum og fannst þau bara létt, for helvede!

Það var þriðjudagur sem byrjaði á kornflexi, lýsi og kaffi, renndi í gegnum fyrirsagnir fréttana á netinu og hjólaði svo upp í skóla. Það var mikill lestur framundan og ég kominn aðeins eftir á. Yfirvegaður gekk ég inn á bókasafn CBS.

- “Fokk itt maður, það er alltaf fullt hérna”. kl. var 11:30 og sosum nægur tími til stefnu, ég myndi bara byrja að lesa í kantínunni og prófa bókasafnið aftur eftir hádegið, þá losnar alltaf eitthvað. Fann fínt borð úti í horni með smá prívasíi. Svo kom hádegi. Ég vissi að þá myndi aukast í kantínunni en en mesta ösin gengi yfir á svona hálftíma. Þá var pikkað í öxlina á mér. “Er þetta laust” var spurt á dönsku. Já, værsogo. Hann var einn. Þá gólaði hann: “ hey strákar, það er laust hérna!” Átta mann borð og þeir sjö, líklega handboltamenn, rosa massaðir og í brandarakeppni. Ég sat milli tveggja næsta klukkutímann. Ekki gat ég farið, þá hefðu þeir unnið. Ekki gat ég verið, erfitt að lesa og massar þurfa sitt pláss. Ég varð lítill í mér og paranojaður, “brandararnir snúast örugglega um mig” , huxaði ég. Þeir fóru kl. rúmlega 13:00. Ég gat ekki verið þarna lengur. Kíkti niður á bókasafn og enn var allt fullt. “Helvítis, djöfulsins”.

Ég sagði sjálfum mér að ég væri flottur og gæti lesið þar sem mér sýndist. “Á ég að fara á S.D.?” Neee....jú það var eiginlega eini staðurinn sem kom til greina. Ég vissi líka núna hvernig best væri að tækla S.D.

Ég parkeraði bronslita fáknum mínum í þartilgert stæði og gekk inn í S.D. eins og ég ætti heiminn. Nú skyldi ég sko ekki klikka! Fór að upplýsingarborðinu og spurði um skápa og hvar lestrarsal-vestur væri að finna. Ég var meira að segja með rétta smámynt í skápinn, ha! Ég gekk rólega og yfirvegað og las á öll skilti sem á vegi mínum urðu. Eftir um 10 mínútur var ég kominn í eldri hluta byggingarinnar. Þar var fólk og fullt af borðum og fólkið var að lesa. “Ahaaa... hér er almenni lestrarsalurinn”, sagði ég við sjálfan mig, ég hef verið í einhverjum rannsóknarlestrarsal síðast. Ég fann autt borð og stól og hóf lesturinn. Þarna var bæði kyrrt og hljótt.

Eftir um 15 mínútna lestur heyrði ég að fólki fór fjölgandi í þessum sal, gott og vel. En fólkið talaði líka, hátt og mikið. Ég spilaði mig sem kúl akademiker og gaf þeim illt auga sem sem voru að blaðra og þeim sem mér fannst eiga það skilið.

Hélt áfram að lesa. Þegar lætin voru gjörsamlega búin að rústa einbeitingunni minni fór ég að borðinu við hliðina á mínu og sagði pirringslega:

- “Where I come from, people keep quiet in the library”. Þá var svarað:

- “Where I come from, people eat in the cafeteria”.

- “Oh yeah!” Sagði ég, og fattaði ekki það sem þið eruð búin að fatta núna. Ég var í gadddemit nestisstofunni sem by the way lítur ekkert út eins og nestisstofa. Ég leit upp og á fólkið sem sat þarna og las..... í Politiken og Berlinske Tidene.

Jú!, mér leið eins og bjána og var greinilega ekki enn búinn að finna lestrarsal-vestur, en sá salur er sagður stærsti einstaki lestrarsalur opinn almenningi í Kaupmannahöfn.

Ég skyldi finna salinn. Gekk aftur til baka og stoppaði. Hvaðan kemur allt þetta fólk og hvert er það að fara? Eftir að hafa elt tvo og endað í bæði skiptin við salernin fann ég loks lestrarsal-vestur. Klukkan var orðinn 15:30 og ég gat náð góðum 4 tímum í lestri áður en ég færi á æfingu. Lestrarsalur-vestur er allur gerður úr gleri svo það sést inn í hann og út úr honum. Þarna var fullt af fólki en nokkur stæði laus. Ég fann hurð(úr gleri) og þreif í hana, hurðin opnaðist ekki við það. Svo ég ýtti, hún opnaðist heldur ekki við það. Þá hristi ég hana fram og til baka í þeirri von að hún myndi opnast en ekkert gerðist. Ég leit upp og horfði í augun á öllum lestrarsalnum sem litið hafði upp úr bókunum til að fylgjast með brjálæðingnum á hurðinni. Ég horfði í gegnum glerið á þau og þau á mig, ég fókusaði á glerið og las þar

“Exit Only”.

Eins og gefur að skilja treysti ég mér ekki í meira þann daginn. Náði í draslið mitt, rauk út, hjólaði af stað með tárin í augunum og fann hvernig Svarti demanturinn eða SVARTI DJÖFULLINN eins og ég kýs að kalla hann, hló að mér þar sem ég barðist við austanáttina á bronslita fáknum mínum.



[1] Svarti demanturinn

9 Comments:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Hahahahha.. Exit only...
Marta-

17:41  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ég er með sting í maganum af meðaumkun og aumingjahrolli...hahahahha!!!

02:27  
Blogger Heklurnar sagði...

Takk fyrir boðið! ef partyið er um helgina er ég samt hrædd um að við komust ekki, próf og lærdómur að hrella okkur, en síminn hjá Sverri Bé er: 252921604

Björt

19:37  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Kæri bróðir,
ég held að þú ættir ekkert að fara
aftur í Svarta Djöfsa, þú átt
greinilega að lesa þínar lexíur
annars staðar.
Frábært ef þú hefðir rifið upp
hurðina, sveittur og pissed,
hahahahah
Rína

21:55  
Anonymous Nafnlaus sagði...

haha aiihh

22:54  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Næst skaltu nota frasa eins og "hey punk, do you feel lucky,,, well do you" í stað "were I come,," . Stend með þér í baráttunni við að læra, eins og þú lýsir þessu þá sýnist mér besti staðurinn til lestrar vera aðalbrautastöðin eða einhvert bar slömm. Hér í RVK eru nokkrir leynistaðir sem enginn kemur á, eins og bókasafn alþingis og Kennó, þar er aldrei neinn.
OBE

12:38  
Blogger Heklurnar sagði...

ok, reynum aftur. S.B: 25921604. Á að vera rétt en þetta eru samt 8 stafir! veit ekki meir? þú finnur vonandi út úr þessu

Bjarden

12:42  
Blogger styrmir sagði...

Takk Björt. Ég skal haf frasana í huga.

15:23  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Takk Styrmir, ég var rétt í thessu ad gera mig ad fífli inni á bókasafni hér á CBS, vid ad skella mjøg uppátt uppúr vid thennan lestur. Ætla samt bara ad sitja smá áfram...
Hrefna

18:56  

Skrifa ummæli

<< Home