laugardagur, apríl 22, 2006

Sumarstarfsmaður í IKEA

Það var komið að enn einum Ikea-deginum í lífi mínu. Ég hef skrifað um Ikea áður og voru það sosum ekkert fallegir pistlar um þann stað. Ég held að þeir sem ekki voru sammála mér um það að Ikea væri helvíti finnist bara gaman að vera nýfarin að búa og loks ráða hvernig umhorfs er í kringum þá...

...allavega, fór í Ikea í gær og var búinn að kvíða því í u.þ.b. mánuð eða frá því áður en ég kom til Reykjavíkur í páskafrí. Ég vissi sosum að að þessum degi myndi koma en ekkert getur undirbúið mig undir það að takast á við þá píslargöngu sem hver Ikea ferð er.

Ég er nefninlega semi-kvíðasjúklingur sem hatar flugvelli og reyni iðulega að þjóra þar til kvíðann þrýtur, flugvallarfyllibytta, af ástæðu sem er læknisfræðileg.... ok, ok, svipað var búið að plaga mig gagnvart þessari Ikea ferð en það er enginn helvítis bar í Ikea, ekki einu sinni hérna!

Þetta myndi bara velta á dagsforminu, ef ég vaknaði rétt þann morguninn, fullur sjálfstrausts og af almennri gleði, myndi ég skella mér.

Sá dagur rann upp í gær.

Jæja, best að taka lestina frá skólanum að Nörreport. Þegar á Nörreport var komið áttaði ég mig á því að ég var við það að fara að pissa í buxurnar. Best að skella sér þá á McDonalds til að sinna kallinu...á efri hæðinni er klósettið, dyr með rauf fyrir mynt. Átti ég mynt? Neei, ég átti ekki mynt í rauf til að létta á mínum skauf. Niður að skipta seðli í myntir. Bólugrafinn McSveittur gat ekki opnað kassann nema ég myndi versla eitthvað. “Fáum þá einn ostborgara”, fékk mynt í afgang og stakk í rauf, var létt stund síðar og strunsaði í átt að 150S sem myndi fara með mig beinustu leið til helvítis, eða Gentofte eins og sumir kalla það. Á leiðinni fann ég fyrir svengd því ég hafði gleymt ostborgaranum inni á klóinu á Mc. Lítill drengur sem sat hinum megin við ganginn í strætó launaði brosi frá mér með horkúluskoti.

Ég hafði nú komið þangað áður, eitthvað senter með Elko, Jysk, toys r’us og Ikea og auðvitað McDonalds.

Ég byrjaði á að kíkja í “gallaðar vörur-Ikea” og fann rúm á afslætti, þetta byrjaði vel. Jæja, finna afreiðsludömu og spyrja hana hvað væri nú að rúminu. “Ekkert” sagði hún “þetta var pantað vitlaust” og sprengdi tyggjókúlu. Tek það. En hvernig má það vera að rúm sem á 10.000 systkini inni í alvöru Ikea sé “vitlaust pantað”, fokk itt, virðist heilt tek það. Næsta skref var því að finna sér vagn til að flytja flykkið. Hvar gat ég geymt það á meðan ég færi inn í alvöru Ikea? (búðirnar eru ekki tengdar saman). Fékk að geyma það hjá strákunum í “Hjemtransport”, liðlegir þessar elskur. Nú gat ég farið og keypt inn: sigti, hillu, hillu, hillu, hnífapör, pott, kertastjaka og eitthvað meira sem ég man ekki hvað var.

Til að gera langa sögu stutta að þá fór ég öfuga leið í Ikea og byrjaði niðri eins og allir Ikea-farandi, ísgefandi helgarforeldrar vita er rangt, já RANGT! Maður á að byrja uppi og vinna sig niður. Reddaðist að lokum, var búinn að vera þarna i 4 klst. án votts eða þurrs. Fann mér svo röð við kassa sem virtist styst, ég meina gerir maður það ekki? Kassinn bilaði og ég horfði á samferðafólk mitt sem valdi sér aðrar raðir valsa hamingjusamt út eftir 5 mínútur í röð. Ég var fastur, milli fólks, var með stóra hillu sem gerði það að verkum að ég gat ekki hreyft mig nema í eina átt, áfram. Eftir 20 mínútur leystist málið þegar kassinn samsíða var opnaður. Þegar komið var að mér sá ég skilti sem á stóð “kun Dankort”. Taka ekki við pen eða korti á þessum nýja kassa. Fór aftast í næstu röð.

Hálftíma seinna var ég staddur á matsölustað Ikea nær hungurmorða. Pantaði mér 10 kjötbollur og langaði til að kasta upp eftir að hafa tínt þær ofan í mig. Ég ákvað að fá mér ekkert að drekka með því það er svo dýrt. Ákvað að heldur myndi ég fylla á varnsbrúsann minn inni á klói eftir að hafa snætt. Á klósetthurðinni var skilti sem á stóð að verið væri að þrífa klóin og ég vinsamlega beðinn um að fara ekki inn á meðan, það tæki ekki nema 5 mínútur. Ég beið í 10 en þá gekk maður inn á klóið, ég fylgdi, ræstingarpersónan hafði gleymt skiltinu á hurðinni. Ég var í alvöru að drepast úr þorsta þegar ég sá að blöndunartækin í Ikea blanda heitu og köldu saman og það er skynjari undir krananum. Ekki fékk ég kalt vatn.

Dótið kom heim til mín 2 tímum síðar með bíl sem ég leigði í Ikea. Ég setti það saman og fékk mér bjór. Sveittur eftir samsetningar sá ég að allt sem ég hafði keypt var ljótt.