Af hverju snýst þetta svona mikið um jafnrétti kynjana alltaf? Ég myndi frekar vilja heyra þessa umræðu um jafnrétti mismunandi þjóðfélagshópa, hvað varðar launamun.
Mér finnst það hafa komið of oft fram í umræðu síðustu daga varðandi kvennafrídaginn að konur hafi einungis 64,15% af launum karla. Hvað þýðir það? Ég hef fylgst með þessu eins og venjulegur maður hefur gert en aldrei hef ég heyrt hvort þetta eigi við um sömu stöðu eða hvort þetta sé bara almennt meðaltal. Ef hið síðarnefnda er staðreyndin þá er þetta ansi einföld statistik til að segja eitthvað til um ástandið. Ef ekki þá er ástandið hrikalegt og ég á bágt með að trúa því að þetta sé meðaltal yfir launamun kynja sem sinna sama starfi, hafa sömu hæfni og skila jafn miklu fyrir viðkomandi fyritæki. Ef að konur vita af þessum launamun í sínu fyrirtæki að þá er ekkert því til fyrirstöðu fyrir þær að fara fram á launahækkun, vísa í þá staðreynd að karlkyns kollegi þeirra hafi svona miklu hærri laun fyrir sömu vinnu og svo er hægt að fá VR í lið með sér en þeirra taxtar taka ekki mið af kyni. Ef fyrirtækið fer fram á launaleynd við starfsfólk sitt að þá er það líklega frekar ýtni og þor karlsins sem skilar honum hærri launum því ég efast um að honum yrðu boðin hærri laun því hann er með typpi! Sem stjórnandi fyrirtækis reynir maður, býst ég við, að halda kostnaði þ.m.t. launum í lágmarki svo lengi sem starfsfólkið er ánægt með sinn samning. Hvar liggur vandinn þá?
Ef þessi launamunur er almennt meðaltal, sem ég efa, þá er þetta skrítin umræða.
Í fyrsta lagi sækja konur frekar í lægra launuð störf. En í þeim störfum fær fólk greitt eftir taxta hvort kynið sem um ræðir, s.s. jafnlág laun, það er víst staðreynd.
Í öðru lagi eru langflestir fyrirtækjaeigendur og forstjórar karlkyns. Ástæðan er held ég ekki sú að stjórn fyrirtækis ráði karlmann í starf vegna þess að hann er betri í golfi en konan heldur meti fólkið að verðleikum. Stórt íslenskt fyrirtæki í alþjóðasamkeppni hefur ekki efni á að hafna hæfasta kandídatnum vegna fordóma í garðs annars kynsins, hvort sem það er kona eða karl. Eða er ég bara naív?
Í þriðja lagi eru karlar líklegri til að taka áhættu, eru hvatvísari og öfgakenndari í flestum gjörðum hvort sem það er í viðskiptum, afbrotum eða neyslu hvers konar. Einnig eru þeir frekar sjálfhverfari en konur almennt og líta stærra á sig en keppinautinn hvort sem þeir hafa efni á því eða ekki. Þar af leiðandi eru fleiri karlar á þingi, í hærri stöðum, í fangelsi og á Vogi, hvar er jafnréttið þar?! Ég vil meina að fólk komi sér á þessa staði af eigin rammleik í flestum tilfellum.
Það er samt greinilega staðreynd að það ríkir ójafnvægi í launum milli kynja og starfa! Það er talað um það að bilið milli ríkra og fátækra sé alltaf að breikka, ríku verða ríkari o.s.frv. Þetta þýðir samt ekki að lægstu laun hafi ekki hækkað heldur að hinir 100 eða 200 sem Frjáls Verslun tók saman sem fólk með hæstu launin (utan fjármagnstekna) eru að fá enn meira fyrir sinn snúð. Þá eru eftir, á að giska, 100.000 íslendingar á vinnumarkaði sem eru venjulegir. En þegar tekið er mið af hinum ofsaríku þá er auðvitað mikill launamunur milli ríkustu og fátækustu.
Eiga þeir sem eru með minna “arðbærari” menntun s.s. sagnfræðingar, kennarar, iðnaðarfólk o.s.frv. að miða sín laun við laun verkfræðina og viðskiptafræðinga sem hafa menntun sem skila meiri monní í vasann? Valdi fólkið ekki sína menntun?
Ég, sem venjulegur maður vil ekki sjá að konur séu teknar fram yfir karla vegna þess að þær eru konur alveg eins og ég vil ekki sjá karla tekna fram yfir konur bara vegna þeirra kynfæra sem við fæðumst með. Þess vegna blæs ég á þau rök að það eigi að vera jafnmargar konur inni á þingi og karlar vegna þess eins að konur eru helmingur þjóðarinnar. Ég veit ekki betur en að það sé kosið á lista flokkana og kosið inn á þing og eflaust eru jafnmargar konur og það eru karlar á kjörskrá. Ef að konur vilja jafna þetta hlutfall þurfa þær að keppa til að ná þangað sem þær vilja alveg eins og karlar og mér þykir skrítið að sumir feministar vilji fá eitthvað gefins, því það er ekki jafnrétti. Auðvitað er annað sem spilar inn í eins og fæðingaorlof en farið verður út í það nánar síðar.
Kannski er ég bara svona geðveikt naív að halda í sakleysi mínu að fólk sé alltaf ráðið í stöður eftir verðleikum. Áfram feminismi!