fimmtudagur, október 19, 2006

Dagurinn minn

Nú fæ ég loks að nöldra í alvörunni sem málpípa kommana, eins og einn sagði. Ég skrifa nokkrar línur á vefritið.is á morgun, hlekkur til hliðar.

Annars er nú gaman hjá okkur Evu þessa dagana. Við vöknum á morgnana og setjum hafra í pott og kaffi í síu, við förum svo yfir daginn "hvað ætlar þú að gera?" aha "en þú". Því næst hjólum við út Classensgade hönd í hönd og furðum okkur á haustlitunum og fegurð þeirra sem eru óðum að yfirtaka borgina. Við snúum á haustsólina á leið okkar meðfram Söene með sólgleraugnanotkun. Eva fer á bókasafnið í Fiolstræde en ég að tala við strákana í Indriða/12 Tónum. Þar drekk ég eins og einn espresso og Þórhallur fræðir okkur um nýjustu plöturnar en Indriði þykist fræða okkur bara almennt. Þá fer nú að líða að hádegi og finnst mér þá tilvalið að fara á bókakaffið og fá mér beyglu með smurosti og reyktum laxi og kíkja í blöðin til að komast að því hvað það er sem skekur heiminn þá stundina.

Ég hef alla tíð haft gaman að bekkjum, þá aðallega að sitja á þeim og stara á endalausa flóru fólksins sem streymir framhjá, stundum líkt og tær lindará í Borgarfirði en stundum líkt og beljandi jökulsá. Það er þá sem ég finn að ég er manneskja. Þegar ég sé að fólk er brigðult og að lífið sé hvorki tímarit né sjónvarpsþáttur þó svo æ fleiri virðist halda það. Samt sem áður öðlast ég ákveðna trú á mannkynið. Að vera meðal fólks er mikilvægt og ekki alltaf sama fólksins. Þegar þarna er komið við sögu á venjulegum degi í lífi mínu finnst mér vera kominn tími á að fá mér kaffisopa. Við Eva mælum okkur mót á einhverjum af fjölmörgum girnilegum kaffistöðum borgarinnar, drekkum kaffi og maulum biscotti. Eva snýr svo aftur á bókasafnið eftir að við höfum rætt ritgerðina hennar þar sem ég reyni iðulega að slá hana út af laginu með óhlutdrægum spurningum hins fáfróða en hún hún færir ávallt óaðfinnanleg rök fyrir máli sínu. Þá hjóla ég heim á leið og hef gaman að tilhugsuninni að ég skuli alltaf hjóla á móti sólinni. Það fá ekki allir að gera og ég þakka fyrir að vera svona lánsamur.

Ég hef reynt að koma því í vana minn að líta við hjá grænmetissalanum á Nordre Frihavnsgade þó það sé ekki til neins annars en að stela einu vínberi og finna anganin af öllum hinum fjölmörgu ávöxtum jarðar sem verslunin hefur að geyma. Handbragð afgreiðsludömunnar er metnaðarfullt og ákveðið þegar hún pakkar tómötunum mínum í dagblað og stingur þeim svo í poka. Ég reyni að lifa hófsömu lífi, ég drekk kannski oft en þá ekki mikið í einu og ég hef aldrei reykt nema þá einn og einn smávindil í góðra vina hópi þegar svo ber við. Ég stenst þó iðulega ekki mátið er ég geng framhjá Italiensk Vinhus á Classensgade. Afgreiðslumaðurinn í vínbúðinni er afkomandi barónana Ricasoli-Firidolfi einnar elstu fjölskyldu í Toscana en langafi Flavio var sá sem fyrst gerði það vín sem við köllum nú til dags Chianti Classico. Við Flavio höfum gaman að því að tala saman á dönsku enda hvorugur reibrennandi. Við kennum hvorum öðrum frasa og hlæjum mikið er við göntumst hvor í öðrum. Áður en ég veit af höfum við dreypt á einu staupi af uppáhalds grappa-inu okkar Flavio, Grappa di Vinacce di Vino Nobile di Montepulciano Salcheto. Eftir staup af grappa, glas af Chianti og gott spjall er kominn tími á að tygja sig heim og undirbúa kvöldmatinn áður en Eva kemur heim.

Við borðum kvöldmat í rólegheitum og reynum að fá niðurstöðu í daginn sem var að líða, stundum tekur það tíma en oftast nær komumst við að niðurstöðu hratt og örugglega. Þegar þreytan sækir að látum við það eftir okkur að fara snemma í háttinn og vonumst til þess að dagurinn á morgun verði jafn mettandi og sá sem var að líða.

20 Comments:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Frásögn þín, kæri bróðir, af hinu daglega lífi ykkar er bæði ævintýraleg og heimilisleg. Minnir
mig einna helst á Þyrnirós eða Birting. Bið að heilsa Flavio!
Einar Marteinn er orðin 5kg
og byrjaður að "manupulera" foreldra sína en hann biður að heilsa ykkur!
kveðja Rína

14:45  
Blogger styrmir sagði...

Takk fyrir kveðjuna og ég bið að heilsa honum til baka. Ég skrifaði þetta aðallega fyrir EMÓ svo hann átti sig á lífinu sem frændi hans lifir hinum megin við hafið.

14:56  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Þetta er ákaflega falleg lýsing á fallegum degi hjá þér kæri vinur.

En dokum aðeins við. Veit ekki betur en ég sé fastur liður í þessari dagsrútínu og honum hefur hreinlega verið sleppt í frásögninni. Það að svitna með fyrrverandi rekkjunauti sínum og tveimur fílsterkum skiptinema-kínamönnum í lyftingarkompu í kjallara á kollegíi útá Amager í von um árangur í líkingu við Sean Connery(ber að ofan í Dr.No '62) er augljóslega ekki nægilega falleg athöfn að hún rati inní fallegu frásögnina af deginum.

Mér er skapi næst að segja frústreða 100 kílóa Serbneska vini okkar sem hamraði boxsekkinn svo duglega um daginn með grifflur og joggingbuxurnar girtar ofan í svarta sokka og lítur út fyrir að vera alltof gamall til að búa á kollegíinu, frá því hvernig þú metur þennan tíma dagsins.

16:09  
Blogger hs sagði...

Styrmir ég legg til að þú skrifir bók .
( þetta er hrós )

hvernig var annars partýið sem ég missti af ?

kv. huldasif

03:08  
Blogger styrmir sagði...

Takk fyrir það, tek það til skoðunar. Partýið var skemmtilegt, ég man allavega ekki hvernig ég fór úr fötunum áður en ég fór að sofa.

14:26  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Vá hvað lífið er YYYYndislegt í Köben.... Tek undir með HS skrifaðu bók stráksi
Marta

15:15  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Borgin við sundin, borgin mín?

stóísk mynd af þér með
kebab og
lille havfruen í baksýn?

án allrar gamansemi, skelltu þér út í skriftir strákur!
Kveðja, Rína

16:23  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ji rómantíkin!

Ég las þetta og hlustaði á Hauk Morthens í útsetningu Flís og var komin langleiðina í haustlitina í Kaupmannahöfn.

p.s. Góð greinin í vefritinu. Flottur strákur!

20:03  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Rosalega er þetta ljúft líf sem þið lifið. Þessi færsla hjá þér er svo lifandi og skemmtileg að ég hef ákveðið að svara henni á mínu eigin vefriti, þ.e. www.kotlugos.blogspot.com

njótið haustdaga í Kubenhavn!

01:09  
Anonymous Nafnlaus sagði...

æji svo datt ég úr gírnum. enda fátt við þessa færslu að bæta.

01:25  
Blogger styrmir sagði...

Ég þóttist bara vera Ólafur Jóhann Ólafsson í smástund og þá bara kom þetta.

Og til hamingju með nýju íbúðina Stella.

08:54  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Braust hann loksins fram! Við vissum öll að hann væri þarna einhvers staðar! Velkominn útúr skápnum, hvernig er útsýnið?

21:58  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Takk vinurinn minn

23:16  
Anonymous Nafnlaus sagði...

varstu í bleikum fötum?
love
hildur

17:36  
Anonymous Nafnlaus sagði...

hæhó kæri bróðir,
langaði bara að segja þér að
Einar Mrteinn, tveggja mánaða
frændi þinn er orðinn tæp 6kg!
Tvöfaldað þyngd sína! Búin að skrá hann í Vestfjarðarvíkinginn næsta sumar! Hann biður rosalega vel að heilsa og saknar þín mikið, mamman biður líka að heilsa.
Rína sös

17:53  
Blogger styrmir sagði...

Jess, bið að heilsa til baka. Eins og hin systirin orðaði það "pældu í því ef ég myndi tvöfalda þyngd mína fyrir jól".

15:18  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Væri ekki bara stemmari að gera
tilraun og öll fjölskyldan
yrði tvöfalt þyngri um áramótin?
Pæling?
Rína

14:12  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ætlaru að slaka einni sneið á mig...?

11:00  
Blogger styrmir sagði...

Ég fékk óbragð í munninn þegar ég sá þetta Stella.

16:55  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Ég held sveimérþá að síðan mín sé virkari en þín Styrmir
Oli

14:24  

Skrifa ummæli

<< Home