fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Sá Bond í gær og þetta truflaði mig eitthvað

B.A. verkefni Evu

Ég mæli með að fólk kíki hingað, upplýsist og segi skoðanir sínar.

föstudagur, nóvember 24, 2006

Spekingurinn ég

Ég eys úr hugsanatankinum mínum í dag á Vefritinu

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Í lukkupottinn

Síðastliðinn laugardag duttum við Eva aldeilis í lukkupottinn.

Indriði ákvað að prufukeyra jólamatinn sem hann ætlar að elda ofan í fjölskylduna sína á okkur Evu. Seinna komu Haukur og Sunna með franska súkkulaðiköku.

Það var helvítis álag á eldhúsinu við að elda önd, kalkún, búa til soð, hita kaffi o.s.frv.
Því sló út örygginu hjá okkur. Taflan er af gamla skólanum og þar af leiðandi ekki flipi til að ýta upp en svo langt nær kunnátta mín varðandi rafmagn. Indriði kunni trix og reif álpappír úr sígarettupakkanum sínum tróð í öryggisstæðið og það varð ljós.

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Við ætlum að hitta vinafólk okkar í kvöld...

Ég held að við Eva séum orðin miðaldra. Við eigum "vinafólk". Við fórum í Tivoli í gær til að fá okkur glögg og eplaskífur. Við fórum með vinafólki okkar. Ég skaut körfubolta í skotbásnum og vann tannstöngul handa Evu. Við fengum gamalt fólk til að taka mynd af okkur. Okkur þótti mjög gaman.

Miðaldra? Allavega ekki kúl. Og lífið snýst um að vera kúl.

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Létt-greiðsla

Það voru liðnir tveir mánuðir frá því ég fór síðast. Í millitíðinni hafði Eva aðeins bjargað málum en það var einungis tímabundið. Það sem hafði tafið þetta allt svona mikið var upptekni minns manns og gátu ég og hann fyrst komið á fundi í lok mánaðarins. Það var einfaldlega of seint og þurfti ég að bregðast við hið snarasta vegna glósa sem ég var farinn að fá úti á götu.

Ég var einhversstaðar á milli Villa borgarstjóra, Donalds Trumps og Golla gulltyppis. Það er ekki gott að vera á milli þeirra.


Því fór ég á stúfana í leit að hárgreiðslustofu. Hana myndi ég finna hratt og örugglega sem ég og gerði. Dizzy & Lizzy á Strandboulevarden var sú fyrsta sem ég sá. Ég fór inn samdi um prís og pantaði tíma. Ég var bókaður klukkustund síðar en fór að efast um þetta val um leið og ég gekk þaðan út. Á leið minni á pósthúsið sá ég fjölmargar hárstofur, sumar báru skrítin nöfn eins og “Directors Cut”.

Klukkan sló “hárgreiðslutíma” og þetta lagðist allt saman bara nokkuð vel í mig. Ég hef sosum aldrei verið einn af “Jómbum” eða “Simbum” þegar það kemur að trendsetti í hártísku en mig langaði samt í almennilega klippingu!

Um leið og ég gekk inn áttaði ég mig á því að ég hafði gert mistök. Þetta var eins og að koma inn á hárgreiðslustofuna á Raufarhöfn sem er að reyna að vera trendí (svona eins og hárgreiðslustofur gera) en allt var bara svo rangt. Ég settist niður og las í blaði er gömul kona kom inn en það fór ekki framhjá neinum því það spilaðist lag þegar einhver gekk inn. Ég var semsagt á svona týpískri gömlukonulagningarstofu. Konan sem tók á móti mér var stór með koparlitaðar strípur undir krem-gylltu ofan-á kollunni. Ég fékk hárþvott þar sem maður leggur hálsinn í þar til gert stæði en barmastóra konan lagði mig bara á milli brjóstana á sér sem ég hélt að væri hárþvottshálsstæðið (áttaði mig á þessu er ég stóð aftur upp).

Ég hafði mikið pælt í því hvernig ég ætti að útskýra hvernig klippingu ég vildi en guggnaði á fyrirfram samdri ræðunni er í stólinn var komið og bað um “almindelig herreklip, tak”. Það eina sem hún mátti ekki gera var að klippa hárbartana vegna þess að skeggið mitt tengist ekki hárinu öðruvísi.

Ég held ég hafi fengið almennilega herraklippingu, ég lít að minnsta kosti út eins og forsöngvarinn í Vínardrengjakórnum (ég yngist svooo við að láta klippa stutt). Hún klippti af hárbartana svo ég neyðist til að raka af mér skeggið og yngjast enn frekar. Konan leysti mig út með þeim fróðleiksmola að ég yrði líklega ekki sköllóttur nema þá helst í hliðunum. Ég verð semsagt eins og móhíkani eftir 20 ár.