fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Kæra dagbók...

Á laugardaginn fer ég á tónleika í Parken. Dave, Martin og Andy koma í bæinn á morgun og ætlum við að reyna að ná einum bjór saman. Annars eru þeir rosalega uppteknir og eru að spila næstum því á hverju kvöldi svo ég býst við að það verði ekkert djamm á okkur strákunum en það verður gaman að rifja upp þegar við hittumst í París fyrir rúmum 4 árum.

Ég vona bara að ég geri mig ekki að fífli fyrir framan Dave en hann er líklega eini karlmaðurinn sem ég myndi glaður fara á ef byðist...eða, þið vitið.

Ég fer í ferðalag á sunnudaginn til Sauðárkróks eða Jægerpris að spila körfubolta. Eruð þið ekki fegin að vita það?? Af hverju ætti ykkur að finnast það áhugavert?

Hins vegar styttist óðum í heimsókn stúlku sem ég kann afar vel við.

mánudagur, febrúar 20, 2006

Einn í bíó

Ég fór einn í bíó um daginn. Fannst það eitthvað trist. Hringdi í Hauk sem var búinn að vera veikur ásamt kærustunni sinni Öglu og sagði honum að ég væri nú bara að spá í að skella mér í bíó. “já, með hverjum?” “Engum”, svaraði ég. Þá hló hann og spurði hvort ég væri að grínast.

Ég var ekki að grínast og sagði honum það.

Það er eitthvað trist við að fara einn í bíó, fara einn út að borða. “Það eru allir að horfa á mig”, eins og sjómaðurinn í Fóstbræðrum hugsaði, sá sem ætlaði að fá sér að ríða maður!

En hvað er það við það að fara einn á stúfana sem gerir það óþægilegt? Er það ekki bara það að ef maður skyldi nú hitta einhvern, þá má sá hinn sami ekki halda um mann að maður eigi enga vini?

Við þetta tækifæri rifjaðist upp fyrir mér þegar ég fór einn í Háskólabíó. Ég var ca. 14 ára og langaði svo geðveikt að sjá stórmyndina “The Relic” með Tom Seizmore og Lindu Hunt í aðalhlutverkum. Gott ef það var ekki þriðjudagstilboð. Dóri komst ekki því Keli frændi og séra Hjalti voru í mat, Svenni var á spilatorgi í Mortal Kombat og mátti ekki alveg vera að þessu.

Ég hjólaði niður á Hagatorg á Murray fjallahjólinu mínu, í kóngabláum Jees-buxum og Shelleys-klossum. Ég var einn en fullur sjálfstrausts sem gerðist ekki oft á mínum unglingsárum. Myndin var stórkostleg eins og glöggir muna og ég alsæll að mynd lokinni. Allt hafði gengið vel og ég ekki hitt neinn. Á leiðinni út úr bíói, í dyrunum á Háskólabíói hitti ég náttúrulega Jóa Árna og Darra vin hans. Voru báðir árinu eldri og ég kannaðist við Jóa úr körfunni. “Hæ”, “sæll”. “Með hverjum ertu?”, “uuu engum, það komst enginn, það voru allir eitthvað uppteknir í kvöld, þetta var eini sénsinn fyrir mig að komast á myndina.”

Fór ekki einn í bíó fyrr en núna.

sunnudagur, febrúar 19, 2006

Er ég búinn að missa það?

Ég kynntist aðeins hópastemmningu í síðustu Íslandsdvöl. Var sosum áhorfandi meira en þátttakandi og þótti fínt á meðan var, ástæðan var allavega þess virði. Ég hefði gengið á glerbrotum.

Sú stemmning er samt ekki mín, ég er ekki hópsál sem er alveg tilbúinn til þess að fórna mér fyrir hópinn, málstaðinn. Kannski er ég það en hef bara aldrei látið á það reyna, nema í körfubolta þar sem ég hef hvort eð er aldrei haft hlutverk. Það fer um mig aumingjahrollur þegar krakkarnir byrja að góla saman í kór, júróvisjónlög, Nína eða Stuðmannalög, sem eru þó skárri. Mér finnst það ekki einu sinni fyndið, ég sé akkúrat ekkkert fyndið við það og finn ekki fyrir neinni frekari stemmningu, ég finn ekki fyrir nostalgíu frá skólaballinu í Kvennó. Þess vegna skil ég þetta ekki alveg og ég læt þennan apahátt fara í taugarnar á mér.

Ekki það að ég sé svona kúl, ég hef alveg sungið í hópi og glaðst með öðrum, dansað ska. En þegar fólki finnst bara góð hugmynd að missa sig og með öllu tapa kúlinu fyrir .... hvað? Hamingju kannski, stundarfróun án fullnægingar. Eða hugsar fólkið ekkert? eða fylgir það bara hinum, stuðboltanum sem kann á gítar og verður að taka þátt í stemmningunni?

Kannski á ég bara slæmar minningar frá fyrirpartíum skólaballa þar sem Nína og Gleðibankinn voru góluð á sama hátt af sama fólkinu í fjögur ár, fimm í mínu tilfelli. Kannski fékk ég bara nóg.

Svo hittist hópurinn aftur seinna þegar haldið verður ríjúníon, allir svo góðir vinir. Jafnvel þeir sem slógust og hræktu hver á aðra, vatn undir brúna, var bara svona hluti af stemmningunni, “oh það var svo gaman að vera ungur”! Þá verður sungið þemalag þess árs sem hópurinn skildi við (I´m a Creep), ásamt Nína og Stál og Hnífur. Allir glaðir, tala um gömlu góðu dagana, Háskólaárin. Ár þunglyndis, brostinna drauma, brostinna hjarta. Ár tækifæra, samlímdra drauma, samlímdra hjarta. Kannski er það betra en það sem á eftir kemur; flytja í úthverfin og fá sér hjólhýsi sem er alveg eins og heima hjá manni vegna þess að maður þolir ekki tilbreytingu og þorir ekki að breyta út af vananum. Eins og það sé betra að lesa Fréttablaðið á tjaldstæðinu á Flúðum, í hjólhýsinu sem er alveg eins og heima hjá manni, heldur en heima hjá sér! Því það er svo mikið ævintýri að grilla á grillinu, eins og maður á heima hjá sér, á tjaldstæðinu á Laugarvatni.
Alveg sama hversu oft þau munu hittast og hve langt verður liðið frá gullaldartímanum þá er eitt víst. Nína verður það sem kemur fólkinu í stuð.


Mér virðist fullorðið fólk tala um það að námsárin hafi verið bestu ár lífs þess,”viðhorfið til lífsins var allt annað”, “maður var svo frjáls”.Eins og maður fái ekki val seinna meir, verði að passa inn í ramma lífstílsþáttana í sjónvarpinu því ef ekki gæti maður dúkkað upp á forsíðu DV sem sá sem beygði útaf. Engin börn, engin fjölskylda, engin ábyrgð, æðislegt! Eða hvað?