Þegar ég var búinn að publisha síðustu færslu fannst mér þetta vera frekar ótrúverðugt að lesa. Hér með fullvissa ég ykkur um að þetta er ekki grín og ekki skáldskapur.
...Það næsta sem ég tók eftir var að mennirnir tveir voru í íþróttapeysum merktum VAGT, sem er einhver öryggisþjónusta í Sjöppen. OK, hugsaði ég, þetta er s.s. vaktað af einhverjum ástæðum, kannski svo heimilislausir búi sér ekki til samastað þarna eða eitthvað í þá áttina. Það sem gerðist næst þótti mér frekar skrítið. Sá gamli virtist hafa róað sig niður en samt sem áður rauk annar VAGT mannanna í hann og tók hann einhvers konar fangabragði. Ekkert brútalt kannski en óþarflega fast miðað við hvað hann var orðinn rólegur. Hinn VAGT maðurinn opnaði hliðið og þeir kipptu manninum inn fyrir. Mér fannst þetta frekar skrítnar aðfarir miðað við það sem ég sá og heyrði. En líklega hafa þeir bara hringt á lögregluna og látið hirða þann gamla.
Það sem hefur verið skrifað að ofan átti sér stað fyrir um tveimur vikum síðan. Síðan þá höfum við ekkert verið að fylgjast neitt sérstaklega með spítalanum og ekki séð neitt óvenjulegt út undan okkur.
Fyrir tveimur nóttum síðan vaknaði ég við að ég þurfti að pissa. Það kemur fyrir. Ég skreið fram úr og gekk inn í stofu. Fannst frekar kalt inni hjá okkur og fór að glugganum ,sem var opinn upp á gátt, til að loka honum. Svefndrukkinn teygði ég mig upp og er litið út. “Hvað er í gangi?” hugsaði ég.
Munið þið eftir sjúkrabílnum sem var alltaf í byrjuninni á þáttunum um “Heilsubælið í Gervahverfi”, svona gamall eins og stór station-bíll. Það var þannig bíl sem búið var að keyra inn fyrir hliðið á spítalanum. Ég leit klukkuna og hún var að verða 04.30. Hurðin aftan á bílnum stóð galopin og u.þ.b. 5-8 menn voru að baksa eitthvað í kringum bílinn. Svolítið eins og þeir væru að bíða eftir einhverju. Úti var náttúrulega myrkur og spítalinn er ekki upplýstur (því hann er yfirgefinn). Eina ljóstýran sem var, var frá bílnum, ekki frá framljósunum heldur ljósinu sem kviknar þegar hurð er opnuð. Ég reyndi að fylgjast með eins og ég gat og stóð sjálfan mig að því að koma mér í hvarf og gægjast út um gluggann. Ég gat ekki séð almennilega hvað var í gangi, var nývaknaður og vankaður. Ég hafði staðið inni í stofu í um 5-10 mínútur ,að ég held, þegar maður kemur hlaupandi út úr byggingunni haldandi á svörtum ruslapoka sem greinilega seig í. Maðurinn kastaði pokanum aftur í, nokkrir mannanna fóru aftur í með pokanum, einn settist undir stýri og tveir fram í hinum megin (líklega verið svona amerískur bekkur fram í). Bílnum var startað en hvorki fram- né afturljós voru kveikt. Bílnum var brunað út að Sögade þar sem hann beygði til hægri eða í austur.