fimmtudagur, október 19, 2006

Dagurinn minn

Nú fæ ég loks að nöldra í alvörunni sem málpípa kommana, eins og einn sagði. Ég skrifa nokkrar línur á vefritið.is á morgun, hlekkur til hliðar.

Annars er nú gaman hjá okkur Evu þessa dagana. Við vöknum á morgnana og setjum hafra í pott og kaffi í síu, við förum svo yfir daginn "hvað ætlar þú að gera?" aha "en þú". Því næst hjólum við út Classensgade hönd í hönd og furðum okkur á haustlitunum og fegurð þeirra sem eru óðum að yfirtaka borgina. Við snúum á haustsólina á leið okkar meðfram Söene með sólgleraugnanotkun. Eva fer á bókasafnið í Fiolstræde en ég að tala við strákana í Indriða/12 Tónum. Þar drekk ég eins og einn espresso og Þórhallur fræðir okkur um nýjustu plöturnar en Indriði þykist fræða okkur bara almennt. Þá fer nú að líða að hádegi og finnst mér þá tilvalið að fara á bókakaffið og fá mér beyglu með smurosti og reyktum laxi og kíkja í blöðin til að komast að því hvað það er sem skekur heiminn þá stundina.

Ég hef alla tíð haft gaman að bekkjum, þá aðallega að sitja á þeim og stara á endalausa flóru fólksins sem streymir framhjá, stundum líkt og tær lindará í Borgarfirði en stundum líkt og beljandi jökulsá. Það er þá sem ég finn að ég er manneskja. Þegar ég sé að fólk er brigðult og að lífið sé hvorki tímarit né sjónvarpsþáttur þó svo æ fleiri virðist halda það. Samt sem áður öðlast ég ákveðna trú á mannkynið. Að vera meðal fólks er mikilvægt og ekki alltaf sama fólksins. Þegar þarna er komið við sögu á venjulegum degi í lífi mínu finnst mér vera kominn tími á að fá mér kaffisopa. Við Eva mælum okkur mót á einhverjum af fjölmörgum girnilegum kaffistöðum borgarinnar, drekkum kaffi og maulum biscotti. Eva snýr svo aftur á bókasafnið eftir að við höfum rætt ritgerðina hennar þar sem ég reyni iðulega að slá hana út af laginu með óhlutdrægum spurningum hins fáfróða en hún hún færir ávallt óaðfinnanleg rök fyrir máli sínu. Þá hjóla ég heim á leið og hef gaman að tilhugsuninni að ég skuli alltaf hjóla á móti sólinni. Það fá ekki allir að gera og ég þakka fyrir að vera svona lánsamur.

Ég hef reynt að koma því í vana minn að líta við hjá grænmetissalanum á Nordre Frihavnsgade þó það sé ekki til neins annars en að stela einu vínberi og finna anganin af öllum hinum fjölmörgu ávöxtum jarðar sem verslunin hefur að geyma. Handbragð afgreiðsludömunnar er metnaðarfullt og ákveðið þegar hún pakkar tómötunum mínum í dagblað og stingur þeim svo í poka. Ég reyni að lifa hófsömu lífi, ég drekk kannski oft en þá ekki mikið í einu og ég hef aldrei reykt nema þá einn og einn smávindil í góðra vina hópi þegar svo ber við. Ég stenst þó iðulega ekki mátið er ég geng framhjá Italiensk Vinhus á Classensgade. Afgreiðslumaðurinn í vínbúðinni er afkomandi barónana Ricasoli-Firidolfi einnar elstu fjölskyldu í Toscana en langafi Flavio var sá sem fyrst gerði það vín sem við köllum nú til dags Chianti Classico. Við Flavio höfum gaman að því að tala saman á dönsku enda hvorugur reibrennandi. Við kennum hvorum öðrum frasa og hlæjum mikið er við göntumst hvor í öðrum. Áður en ég veit af höfum við dreypt á einu staupi af uppáhalds grappa-inu okkar Flavio, Grappa di Vinacce di Vino Nobile di Montepulciano Salcheto. Eftir staup af grappa, glas af Chianti og gott spjall er kominn tími á að tygja sig heim og undirbúa kvöldmatinn áður en Eva kemur heim.

Við borðum kvöldmat í rólegheitum og reynum að fá niðurstöðu í daginn sem var að líða, stundum tekur það tíma en oftast nær komumst við að niðurstöðu hratt og örugglega. Þegar þreytan sækir að látum við það eftir okkur að fara snemma í háttinn og vonumst til þess að dagurinn á morgun verði jafn mettandi og sá sem var að líða.

mánudagur, október 16, 2006

Áframhaldandi upprifjun

Jæja, þá er það byrjað aftur.

Það var frekar skrítið að lenda hér í Köben að kvöldi 2. janúar, einn með 4 töskur. Já, nóg á maður af drasli sem maður telur bráðnauðsynlegt að taka með sér og voru handtöskurnar 3 plús líkkistan sem ma og pa gáfu mér í haust (1000 lítrar). Ég gekk út af Kastrup, hættur við að taka lestina, og skimaði um eftir taxa. En auðvitað var enginn þar og þá. Ég gekk aðeins áfram ýtandi á undan mér stórri kerru þegar leigubíll keyrir upp að mér og opnar rúðuna hjá sitjandi farþega í framsæti bílsins. "Vantar þig bíl" gólar bílstjórinn yfir farþegann. Ég játti því og bjóst við að hann myndi kalla upp e-n frænda sinn. "Stökktu upp í", haa... nei nei ég er með svo mikinn farangur maður, þetta reddast, ég bíð bara eftir næsta, svaraði ég. Nennti ekki að fara að standa í því að deila bíl með e-m öðrum en hugsaði með mér að ég gæti nú grætt á þessu! Bílstjórinn vildi ólmur fá mig með, hvað græðir hann sosum á því, hugsaði ég með mér en vildi nú ekki fara að þræta um þetta við hann (hef ekki góða reynslu af því að þræta við Tyrki í Köben). Jæja, ég sló til eftir að hafa spurt aumingjalega norðmanninn sem sat í framsætinu hvort honum væri sama, hann muldraði e-ð og brosti aumingjalega brosinu sínu og ég tók því sem já-i. “I make monní, you make monní, evríbodí makes monní!” var það fyrsta sem leigubílstjórinn sagði, svona til að brjóta ísinn. Ég sat aftur í og norðmaðurinn hríðskalf í framsætinu og hélt að það væri verið að svindla á sér (alltaf að spyrja hvort ekki hefði verið betra að fara til hægri hér, vinstri þar). Svo átti að skila Norsaranum af sér en þá var ekki heimild á kortinu hans, vei! Hann krullaðist allur upp greyið og Tyrkinn var ekki par sáttur við þessa tilburði Norsarans og sendi hann inn í húsið sitt til að ná í peninga (Norsarinn fór þótt hann hafi vitað að hann ætti ekkert þar frekar en í veskinu sínu). Á meðan hann var inni að leita urðum við Tyrkinn ágætis félagar og gerðum grín að aumingjalega Norsaranum og töluðum um mikilvægi þess að ganga um með “cash” á sér. “I meik you deal!”, nú hvað þá? “You sit in front and I take you home for 150 DKR, very good price”, jæja já hugsaði ég með mér, það er nú ekki svo slæmt, ca 200 kall venjulega. “And I take responsebil if cop is stopping us”, OK I´m in for that, svaraði ég. Svo kom Norsarinn til baka peningalaus og allslaus og við fórum í ATM á næsta horni og hann sendur út með VISA kortið sitt og hvað haldið þið...bankinn gleypti kortið hans! Allann tímann sit ég í taxa, hefði fyrir löngu getað verið kominn heim. Nú voru góð ráð dýr og Tyrkinn skynjaði grátstafina í kverkum aumingja Norsarans og útbjó rosalegasta gíróseðil sem ég hef séð á e-ð blað sem hann fann á gólfinu í bílnum.

Norsaranum hent heim og þá átti ég að koma fram í, en ekki fyrr en Norsarinn væri kominn inn til sín. Ég steig út og ætlaði fram í , opnaði hurðina og sé að Tyrkinn er að koma sætinu í öftustu stöðu og halla því geðveikt aftur. Kannski er þetta e-r massa pervert sem ætlar að óla mig niður í framsætið hjá sér og hringir svo í alla tyrknesku vini sína og haldinn verður tyrknesk svallveisla í í boði mín. Ég bægði þessu frá og bað um útskýringar á þessu öllu. “Yes, you sit down and in front”, ok sagði ég og lagðist. “No no no, with your ass in front!” Ye ok, svaraði ég og settist fremst á sætið uppréttur. “No no no, put your ass in front and lie down!” Hvar er ég staddur? Í donskum leigubíl eða tyrkneskri klámmynd? Svo skildi ég hvað hann átti við og lá í sætinu á þess að stija í miðju þess en þar er nefninlega skynjari sem nemur farþega og skráir það í tölvu í taxanum. Hann vantaði þetta svart og mig vantaði þetta ódýrt. Svo komst ég að því að hann ætti ekki bílinn heldur var að keyra hann fyrir vin sinn sem hann var samt að snuða! “I need black monní, for cigarettes you know” ég sagðist skilja hann fullkomlega. “You want one?”, thanks. Svo sátum við (hann sat, ég lá), ég og Tyrkinn, í smók, alsælir með fyrirkomulagið. Hann keyrði mig upp að dyrum og bar töskurnar mínar þangað líka. 150 kall og handaband og málið var dautt. Besti díll sem ég hef gert.

þriðjudagur, október 10, 2006

II. hluti

Saga

Fimm mánuðum eftir S.D.[1]- áfallið eða fyrir viku síðan fann ég að ég var orðinn kúl. Þekki Köben betur en Vesturbæinn, panta kebab án þess að vera misskilinn og búinn að ná prófunum og fannst þau bara létt, for helvede!

Það var þriðjudagur sem byrjaði á kornflexi, lýsi og kaffi, renndi í gegnum fyrirsagnir fréttana á netinu og hjólaði svo upp í skóla. Það var mikill lestur framundan og ég kominn aðeins eftir á. Yfirvegaður gekk ég inn á bókasafn CBS.

- “Fokk itt maður, það er alltaf fullt hérna”. kl. var 11:30 og sosum nægur tími til stefnu, ég myndi bara byrja að lesa í kantínunni og prófa bókasafnið aftur eftir hádegið, þá losnar alltaf eitthvað. Fann fínt borð úti í horni með smá prívasíi. Svo kom hádegi. Ég vissi að þá myndi aukast í kantínunni en en mesta ösin gengi yfir á svona hálftíma. Þá var pikkað í öxlina á mér. “Er þetta laust” var spurt á dönsku. Já, værsogo. Hann var einn. Þá gólaði hann: “ hey strákar, það er laust hérna!” Átta mann borð og þeir sjö, líklega handboltamenn, rosa massaðir og í brandarakeppni. Ég sat milli tveggja næsta klukkutímann. Ekki gat ég farið, þá hefðu þeir unnið. Ekki gat ég verið, erfitt að lesa og massar þurfa sitt pláss. Ég varð lítill í mér og paranojaður, “brandararnir snúast örugglega um mig” , huxaði ég. Þeir fóru kl. rúmlega 13:00. Ég gat ekki verið þarna lengur. Kíkti niður á bókasafn og enn var allt fullt. “Helvítis, djöfulsins”.

Ég sagði sjálfum mér að ég væri flottur og gæti lesið þar sem mér sýndist. “Á ég að fara á S.D.?” Neee....jú það var eiginlega eini staðurinn sem kom til greina. Ég vissi líka núna hvernig best væri að tækla S.D.

Ég parkeraði bronslita fáknum mínum í þartilgert stæði og gekk inn í S.D. eins og ég ætti heiminn. Nú skyldi ég sko ekki klikka! Fór að upplýsingarborðinu og spurði um skápa og hvar lestrarsal-vestur væri að finna. Ég var meira að segja með rétta smámynt í skápinn, ha! Ég gekk rólega og yfirvegað og las á öll skilti sem á vegi mínum urðu. Eftir um 10 mínútur var ég kominn í eldri hluta byggingarinnar. Þar var fólk og fullt af borðum og fólkið var að lesa. “Ahaaa... hér er almenni lestrarsalurinn”, sagði ég við sjálfan mig, ég hef verið í einhverjum rannsóknarlestrarsal síðast. Ég fann autt borð og stól og hóf lesturinn. Þarna var bæði kyrrt og hljótt.

Eftir um 15 mínútna lestur heyrði ég að fólki fór fjölgandi í þessum sal, gott og vel. En fólkið talaði líka, hátt og mikið. Ég spilaði mig sem kúl akademiker og gaf þeim illt auga sem sem voru að blaðra og þeim sem mér fannst eiga það skilið.

Hélt áfram að lesa. Þegar lætin voru gjörsamlega búin að rústa einbeitingunni minni fór ég að borðinu við hliðina á mínu og sagði pirringslega:

- “Where I come from, people keep quiet in the library”. Þá var svarað:

- “Where I come from, people eat in the cafeteria”.

- “Oh yeah!” Sagði ég, og fattaði ekki það sem þið eruð búin að fatta núna. Ég var í gadddemit nestisstofunni sem by the way lítur ekkert út eins og nestisstofa. Ég leit upp og á fólkið sem sat þarna og las..... í Politiken og Berlinske Tidene.

Jú!, mér leið eins og bjána og var greinilega ekki enn búinn að finna lestrarsal-vestur, en sá salur er sagður stærsti einstaki lestrarsalur opinn almenningi í Kaupmannahöfn.

Ég skyldi finna salinn. Gekk aftur til baka og stoppaði. Hvaðan kemur allt þetta fólk og hvert er það að fara? Eftir að hafa elt tvo og endað í bæði skiptin við salernin fann ég loks lestrarsal-vestur. Klukkan var orðinn 15:30 og ég gat náð góðum 4 tímum í lestri áður en ég færi á æfingu. Lestrarsalur-vestur er allur gerður úr gleri svo það sést inn í hann og út úr honum. Þarna var fullt af fólki en nokkur stæði laus. Ég fann hurð(úr gleri) og þreif í hana, hurðin opnaðist ekki við það. Svo ég ýtti, hún opnaðist heldur ekki við það. Þá hristi ég hana fram og til baka í þeirri von að hún myndi opnast en ekkert gerðist. Ég leit upp og horfði í augun á öllum lestrarsalnum sem litið hafði upp úr bókunum til að fylgjast með brjálæðingnum á hurðinni. Ég horfði í gegnum glerið á þau og þau á mig, ég fókusaði á glerið og las þar

“Exit Only”.

Eins og gefur að skilja treysti ég mér ekki í meira þann daginn. Náði í draslið mitt, rauk út, hjólaði af stað með tárin í augunum og fann hvernig Svarti demanturinn eða SVARTI DJÖFULLINN eins og ég kýs að kalla hann, hló að mér þar sem ég barðist við austanáttina á bronslita fáknum mínum.



[1] Svarti demanturinn

föstudagur, október 06, 2006

Ég hef sagt þessa sögu áður

Ég þarf að fara að blögga oftar.

Eva kom út fyrir 10 dögum síðan og síðan þá hefur síðan verið vanrækt af mér. Við erum flutt á östbanegade 43 2,2. Tussufínt pleis og við rétt að koma okkur fyrir. Ég var ekki sérlega kunnugur hér á Österbro fyrr en nú en maður á ekkert erindi hingað nema maður búi hér. Íbúðin er sú besta sem ég hef búið í síðan ég flutti hingað og er ég feginn að vera farinn úr forstofuherberginu fyrir fullt og allt.

Síðan Eva kom hefur hún skráð sig inn í landið, opnað símreikning, bankareikning og talað dönsku. Allt þetta tók mig u.þ.b. ár að ná að gera. Ég bara meikaði ekki að fara hratt í sakirnar, varð bara hysterískur og svitnaði í lófunum. Það sem fór mest fyrir brjóstið á mér var að hún var komin með bókasafnsskírteini á aðalbókasafninu, bókasafn sem ég hafði aldrei komið inn í, eftir tveggja daga veru í stórborginni.

Við það að fylgjast með fyrstu skrefum ungrar Kaupmannahafnarstúdínu úr Hlíðunum fór ég að rifja upp hvernig þetta var hjá mér í byrjun. Við þessa upprifjun datt mér í hug dagbókarfærsla sem ég skrifaði fljótlega eftir að ég kom hingað út. Ég ætla að leyfa ykkur að lesa hvernig mér leið fyrstu dagana mína hér í Kjuben en fyrri hlutinn kemur núna og seinni á næstu dögum en svo að einhver nenni að lesa þetta verð ég að skipta þessu niður, værsogo!

Forsaga

Þegar ég flutti til Köben í haust bjó ég á Amager með Hauki, Öglu og stundum Guðmundu líka. Íbúðin var ekki stór en en það kom ekki að sök, nema þegar tími var kominn á að leggjast yfir skruddurnar. Yfirleitt reyndi ég að læra bara í skólanum en oftar en ekki var bókasafnið fullt og varð ég því frá að hverfa.

Ég hafði séð fallega byggingu, rétt hjá Langebro (brúin yfir á Amager), sem er kölluð Svarti demanturinn eða Det Kongelige Bibliotek. Þar skyldi ég aldeilis leita athvarfs ef CBS gæti ekki tekið á móti mér.

Ég hjólaði þangað í fallegri haustsólinni til að lesa kafla morgundaxins. Safnið var risastórt og flókið við fyrstu sýn. Ég þóttist þó vita hvar ég fyndi lestrarsal enda ratvís með eindæmum. Maður verður nú alltaf að spila sig kúl og spyrja ekki til vegar, þykjast vera innfæddur en ekki útfæddur, í gær.

Til hægri, svo vinstri, hægri aftur, upp rúllustiga og beint áfram. “Læsehal A, kun for brugere”. Þetta var eitthvað fyrir mig. Ég opnaði og gekk inn í stórann 200 ára gamlan sal sem lyktaði af þekkingu, gömlum bókum og kaffisvita. Mér leist vel á þetta, hér gæti ég sko gleymt mér í skólabókunum. Ég gekk inn í miðjan salinn, fann mér borð, tók af mér jakkann og hengdi á stólbakið, taskan fór á gólfið við hliðina á stólnum og ég tók upp bækurnar. Allt þetta gerði ég hljóðlega svo ég rifi ekki dauðaþögnina sem fyrir var. Ég var rétt byrjaður að strika undir í fyrstu línu er ég sá Birkenstock og rifflaðar flauelsbuxur koma skokkandi í áttina að mér. Þetta var bókavörðurinn. Með skokki sínu fékk hann allann salinn til að líta upp úr bókunum.

-“Það er stranglega bannað að vera með yfirhafnir og töskur hérna inni.” Hvæsti hann á mig, lafmóður eftir skokkið.

-“Uuuu.. önskjull”.

-” Þú þarft að fara héðan út og niður á fyrstu hæð, finna þér skáp og læsa dótið þar inni.” Alveg massapirraður.

Ég pakkaði saman, tók jakkann minn og strunsaði út með kökkinn í hálsinum. Allir í salnum gáfu mér pirringslegt augnaráð. Þetta var nú ekki svona á bókhlöðunni, huxaði ég með mér.

Ég rétt rataði aftur út úr byggingunni, fullur paranoju og fannst allir í byggingunni vita hversu vitlaus og óveraldarvanur ég væri. Þegar út kom sneri ég mér að innganginum og öskraði

“Ég kem aldrei hingað aftur!”, eða mig langaði til þess.