Dagurinn minn
Nú fæ ég loks að nöldra í alvörunni sem málpípa kommana, eins og einn sagði. Ég skrifa nokkrar línur á vefritið.is á morgun, hlekkur til hliðar.
Annars er nú gaman hjá okkur Evu þessa dagana. Við vöknum á morgnana og setjum hafra í pott og kaffi í síu, við förum svo yfir daginn "hvað ætlar þú að gera?" aha "en þú". Því næst hjólum við út Classensgade hönd í hönd og furðum okkur á haustlitunum og fegurð þeirra sem eru óðum að yfirtaka borgina. Við snúum á haustsólina á leið okkar meðfram Söene með sólgleraugnanotkun. Eva fer á bókasafnið í Fiolstræde en ég að tala við strákana í Indriða/12 Tónum. Þar drekk ég eins og einn espresso og Þórhallur fræðir okkur um nýjustu plöturnar en Indriði þykist fræða okkur bara almennt. Þá fer nú að líða að hádegi og finnst mér þá tilvalið að fara á bókakaffið og fá mér beyglu með smurosti og reyktum laxi og kíkja í blöðin til að komast að því hvað það er sem skekur heiminn þá stundina.
Ég hef alla tíð haft gaman að bekkjum, þá aðallega að sitja á þeim og stara á endalausa flóru fólksins sem streymir framhjá, stundum líkt og tær lindará í Borgarfirði en stundum líkt og beljandi jökulsá. Það er þá sem ég finn að ég er manneskja. Þegar ég sé að fólk er brigðult og að lífið sé hvorki tímarit né sjónvarpsþáttur þó svo æ fleiri virðist halda það. Samt sem áður öðlast ég ákveðna trú á mannkynið. Að vera meðal fólks er mikilvægt og ekki alltaf sama fólksins. Þegar þarna er komið við sögu á venjulegum degi í lífi mínu finnst mér vera kominn tími á að fá mér kaffisopa. Við Eva mælum okkur mót á einhverjum af fjölmörgum girnilegum kaffistöðum borgarinnar, drekkum kaffi og maulum biscotti. Eva snýr svo aftur á bókasafnið eftir að við höfum rætt ritgerðina hennar þar sem ég reyni iðulega að slá hana út af laginu með óhlutdrægum spurningum hins fáfróða en hún hún færir ávallt óaðfinnanleg rök fyrir máli sínu. Þá hjóla ég heim á leið og hef gaman að tilhugsuninni að ég skuli alltaf hjóla á móti sólinni. Það fá ekki allir að gera og ég þakka fyrir að vera svona lánsamur.
Ég hef reynt að koma því í vana minn að líta við hjá grænmetissalanum á Nordre Frihavnsgade þó það sé ekki til neins annars en að stela einu vínberi og finna anganin af öllum hinum fjölmörgu ávöxtum jarðar sem verslunin hefur að geyma. Handbragð afgreiðsludömunnar er metnaðarfullt og ákveðið þegar hún pakkar tómötunum mínum í dagblað og stingur þeim svo í poka. Ég reyni að lifa hófsömu lífi, ég drekk kannski oft en þá ekki mikið í einu og ég hef aldrei reykt nema þá einn og einn smávindil í góðra vina hópi þegar svo ber við. Ég stenst þó iðulega ekki mátið er ég geng framhjá Italiensk Vinhus á Classensgade. Afgreiðslumaðurinn í vínbúðinni er afkomandi barónana Ricasoli-Firidolfi einnar elstu fjölskyldu í Toscana en langafi Flavio var sá sem fyrst gerði það vín sem við köllum nú til dags Chianti Classico. Við Flavio höfum gaman að því að tala saman á dönsku enda hvorugur reibrennandi. Við kennum hvorum öðrum frasa og hlæjum mikið er við göntumst hvor í öðrum. Áður en ég veit af höfum við dreypt á einu staupi af uppáhalds grappa-inu okkar Flavio, Grappa di Vinacce di Vino Nobile di Montepulciano Salcheto. Eftir staup af grappa, glas af Chianti og gott spjall er kominn tími á að tygja sig heim og undirbúa kvöldmatinn áður en Eva kemur heim.
Við borðum kvöldmat í rólegheitum og reynum að fá niðurstöðu í daginn sem var að líða, stundum tekur það tíma en oftast nær komumst við að niðurstöðu hratt og örugglega. Þegar þreytan sækir að látum við það eftir okkur að fara snemma í háttinn og vonumst til þess að dagurinn á morgun verði jafn mettandi og sá sem var að líða.