mánudagur, mars 28, 2005

Trúið þið mér núna?

Ég held að Dóri eigi kollgátuna. Á meðan maður hýrist á börum borgar óttans finnast líkamspartar í hverfinu mínu heima í Sjöppen.

Ég sagði ykkur að þetta myndi gerast en enginn vildi hlusta. Það hafa fundist hendur og fætur um páskana og í gær fannst svo búkurinn af þessu öllu saman. Ég er farinn að hafa áhyggjur af rekkjunauti mínum enda ekkert heyrt í honum. Ætli hann hafi farið inn fyrir múrana án mín?
Endilega láttu heyra í þér Haukur ef þú ert þarna ennþá. Ég get nefninlega ekki dekkað leiguna aleinn.

laugardagur, mars 19, 2005

Skræfur eða skynsamir?

Að sjálfsögðu erum við Haukur að tryllast úr forvitni. Hvað gæti mögulega verið í gangi þarna? Okkur hefur dottið alls konar vitleysa í hug. Fyrst héldum við hreinlega að það væri reimt í helvítis spítalanum og biðum bara eftir að finna einn sjúkling hangandi á glugganum okkar í spennitreyjunni sinni. Síðasta samsæriskenningin er sú að það sé verið að gera einhvers konar tilraunir á fólki þarna. Jafnvel undirmálsfólki og rónum. Gamli maðurinn styður þá kenningu í það minnsta. Spurningum er ósvarað; hvað varð um þann gamla? Hver gæti viljað vera að þvælast þarna á nóttunni eingöngu án þess að vera að fela eitthvað? Ef það er einhver starfsemi þarna, af hverju er þetta þá ekki merkt einhvern veginn? Og hvað vildu mennirnir þarna um nóttina? Og hvað var í fokking pokanum sem þeir hentu aftur í bílinn?

En hvað í andskotanum gerir maður í svona stöðu? Á maður að hringja á lögguna og vera sjálfur lagður inn á spítala? Á maður að spyrja nágrannana hvort þeir hafi tekið eftir einhverju undarlegu? Eða bara að snappa sjálfur úr þessari geðveiki og hætta að pæla í þessu?

Okkur finnst við ekki alveg geta látið þetta vera, erum orðnir allt of forvitnir. Okkur datt í hug að klifra yfir vegginn beint á móti og komast þannig inn í fasilítetið. Fara eina nóttina til að tékka á þessu. En við erum líka smeykir við það eftir móttökurnar sem gamli maðurinn fékk fyrir tveimur vikum. En við erum sprettharðir og hraustir strákar og gætum þess vegna tekið með myndavél, þá væri allavega ekki tilgangslaust að fara þangað ef við sæjum eitthvað dodgy. Gætum jafnvel tekið upp myndbrot á littlu myndavélina hans Hauks og reynt að publisha því á síðuna.

En auðvitað er maður smeykur við að gera eitthvað svoleiðis. Þið ættuð að sjá gadd-demitt spítalann eftir að dimmann dettur á. Maður getur fundið lyktina af spennitreyjunum sem hlupu í hringi í spítalagarðinum fyrir 150 árum. Tim Burton gæti notað útsýnið í einhverja mynd. Kuldalegar, tómar, dauðar og eldgamlar steinbyggingar, séðar í gegnum laufvana stór tré.
Mynduð þið þora?

fimmtudagur, mars 17, 2005

Doktor?

Þegar ég var búinn að publisha síðustu færslu fannst mér þetta vera frekar ótrúverðugt að lesa. Hér með fullvissa ég ykkur um að þetta er ekki grín og ekki skáldskapur.

...Það næsta sem ég tók eftir var að mennirnir tveir voru í íþróttapeysum merktum VAGT, sem er einhver öryggisþjónusta í Sjöppen. OK, hugsaði ég, þetta er s.s. vaktað af einhverjum ástæðum, kannski svo heimilislausir búi sér ekki til samastað þarna eða eitthvað í þá áttina. Það sem gerðist næst þótti mér frekar skrítið. Sá gamli virtist hafa róað sig niður en samt sem áður rauk annar VAGT mannanna í hann og tók hann einhvers konar fangabragði. Ekkert brútalt kannski en óþarflega fast miðað við hvað hann var orðinn rólegur. Hinn VAGT maðurinn opnaði hliðið og þeir kipptu manninum inn fyrir. Mér fannst þetta frekar skrítnar aðfarir miðað við það sem ég sá og heyrði. En líklega hafa þeir bara hringt á lögregluna og látið hirða þann gamla.

Það sem hefur verið skrifað að ofan átti sér stað fyrir um tveimur vikum síðan. Síðan þá höfum við ekkert verið að fylgjast neitt sérstaklega með spítalanum og ekki séð neitt óvenjulegt út undan okkur.

Fyrir tveimur nóttum síðan vaknaði ég við að ég þurfti að pissa. Það kemur fyrir. Ég skreið fram úr og gekk inn í stofu. Fannst frekar kalt inni hjá okkur og fór að glugganum ,sem var opinn upp á gátt, til að loka honum. Svefndrukkinn teygði ég mig upp og er litið út. “Hvað er í gangi?” hugsaði ég.

Munið þið eftir sjúkrabílnum sem var alltaf í byrjuninni á þáttunum um “Heilsubælið í Gervahverfi”, svona gamall eins og stór station-bíll. Það var þannig bíl sem búið var að keyra inn fyrir hliðið á spítalanum. Ég leit klukkuna og hún var að verða 04.30. Hurðin aftan á bílnum stóð galopin og u.þ.b. 5-8 menn voru að baksa eitthvað í kringum bílinn. Svolítið eins og þeir væru að bíða eftir einhverju. Úti var náttúrulega myrkur og spítalinn er ekki upplýstur (því hann er yfirgefinn). Eina ljóstýran sem var, var frá bílnum, ekki frá framljósunum heldur ljósinu sem kviknar þegar hurð er opnuð. Ég reyndi að fylgjast með eins og ég gat og stóð sjálfan mig að því að koma mér í hvarf og gægjast út um gluggann. Ég gat ekki séð almennilega hvað var í gangi, var nývaknaður og vankaður. Ég hafði staðið inni í stofu í um 5-10 mínútur ,að ég held, þegar maður kemur hlaupandi út úr byggingunni haldandi á svörtum ruslapoka sem greinilega seig í. Maðurinn kastaði pokanum aftur í, nokkrir mannanna fóru aftur í með pokanum, einn settist undir stýri og tveir fram í hinum megin (líklega verið svona amerískur bekkur fram í). Bílnum var startað en hvorki fram- né afturljós voru kveikt. Bílnum var brunað út að Sögade þar sem hann beygði til hægri eða í austur.

Til að átta sig

Haukur bætti fyrir mig inn myndum til að fólk átti sig á umfangi spítalans. Bartholinsgade liggur við suð-vesturenda myndarinnar, við kirkjuturninn. Hin myndin er frá starfsemi byggingarinnar þegar hún hýsti fólk í spennitreyjum.

miðvikudagur, mars 16, 2005

Fólk í spennitreyjum

Það er gamall spítali sem liggur við götuna sem við Haukur búum við. Þessi spítali er gamli kommúnuspítalinn en var reistur sem geðspítali fyrir um 200 árum. Það var Bartholin, sem kenndur er við götuna sem ég bý við, sem stofnaði þennan spítala á sínum tíma. Spítalinn er risastór og telur margar byggingar. Það er ein aðalbygging sem umlykur garð sem geymir nokkrar minni byggingar.

Frá því að við fluttum á Bartholinsgade hafa þessar gömlu byggingar staðið auðar, þangað til um daginn.

Við horfum á bygginguna og inn í hana beint úr stofunni okkar. Fyrir stuttu var ég að skipta um plötu í græjunum sem eru í gluggakistunni. Við það rak ég augun í ljós í gamla spítalanum. Ég kallaði á Hauk og við fylgdumst með eins og hægt var, okkur þótti þetta ansi grunsamlegt. Við ákváðum náttúrulega að byrja að fylgjast með en það var mjög tilviljanakennt hvernig mannaferðum var háttað í byggingunni næstu kvöld á eftir.

Það er rétt að nefna það að öll hliðin inn fyrir spítalasvæðið eru merkt með skiltum sem stranglega banna alla umferð og þau gefa til kynna að eftirlitsmyndavélar vakti svæðið. Okkur þótti skrítið að það þyrfti myndavélar til að vakta svæði sem stendur algerlega autt.

Hvað um það. Við hættum að nenna að fylgjast með þessu og fannst allur draugasjarmi farinn af þessu. Líklega væri bara verið að gera upp bygginguna. Það eina sem truflaði okkur voru þessar mannaferðir á kvöldin. Það var allt með kyrrum kjörum allann daginn en á kvöldin sáum við glitta í ljós og sáum skugga á hreyfingu. Kvöldin voru líka eini tíminn sem hliðin voru opin.

Eitt kvöld sat ég heima og las í bók. Haukur var á hljómsveitaræfingu. Klukkan var ekki meira en 23.00. Ég var að hlusta á Dylan þegar ég heyri einhvern skarkala fyrir utan (hróp og köll). Það var svo sem ekkert nýtt, einhver dottinn í það. En skarkalinn hélt áfram og var slíkur að ég stóð upp til að líta út. Sé ég þá tvo menn frekar stóra vera að ræða við annann sem var gamall maður. Allir mennirnir standa beint fyrir framan aðalhlið spítalans. Sá gamli er greinilega drukkinn og er með stæla við hina. Ég fylgist með og veit ekki hvaðan á mig stendur veðrið þegar ég finn sjálfan mig stökkva burt frá glugganum, annar stóru mannanna hafði litið upp. Ég slökkti öll ljós inni hjá mér og hélt áfram að fylgjast með...

mánudagur, mars 14, 2005

La Cultura Nostra

MenningarMafían í Sjuppen ákvað að skella sér í bíó á laugardaginn. Nighthawk, DJ Database, El Arkitektó og Psycho Stygo skipa mafíuna og hafa þau hist reglulega frá áramótum. Leynilegir fundir hafa átt sér stað á Louisiana, á tónleikum, í heimahúsum og á netinu. Mafíuna þyrsti í menningu á laugadagskvöldið svo ákveðið var að fara í bíó eftir Pizzu-partý hjá Nighthawk og Psycho Stygo. Nighthawk sem sér um tæknilegar hliðar allra aðgerða hafði pantað miða á netinu á myndina Sideways. Hann fékk kóða sem þyrfti einungis að stimpla inn í sjálfsalann í bíó. El Arkitektó var að tapa sér úr stressi og lá við kvíðakasti á Nörreport, 30 mín. fyrir bíó. Psycho bað hana um að halda stillingu og koma ekki upp okkur. Við vorum komin á svæðið um 21.10. myndin átti að byrja kl. 21.15. Dj Database tók ekki í mál annað en að fá stórann popp og stóra kók. Hún fékk leyfi eftir mikið nöldur og nánast rifrildi við hina því við vorum að verða of sein. Á meðan Database sjoppaði var Nighthawk að græja miðana í sjálfsalanum, sem var ekki að virka. Klukkann var orðinn Bíó þegar Nighthawk fattaði að hann var búinn að vera að stimpla inn símanúmerið hjá Psycho í sjálfsalann en ekki kóðann fyrir miðunum. El Arkitektó var að missa vitið af stressi, þurfti Database því að taka hana á eintal til að róa hana niður. Nú voru allir ánægðir; Database með popp og kók, búið að róa El Arkitektó niður, Nightawk kominn með miða en Psycho var fýldur eins og venjulega. Þegar búið var að rífa stubbana af miðum helmings mafíunar kom í ljós að hún var stödd í röngu bíói. Fokk! Við vorum í Palads en ekki Palladium. Mafían, sem var búin að skipuleggja flóttaleiðir úr bíói hljóp út og skimaði í kringum sig. El Arkitektó spurði til vegar og svo var hlaupið og hlaupið, yfir umferðargötur og torg, bílar skransandi til að sveigja fram hjá okkur. DJ Database var ekki hress með hlaupahraða félaga sinna því hún hélt á stórum poppi og stórri kók og skildi eftir poppslóð frá Palads yfir að Palladium. Stór popp var orðinn að miðlungs þegar mafían skilaði sér í rétt bíó. Sem betur fer var seinkunn á myndinni. Myndin var góð.
Database er ennþá fúl útaf poppinu, Arkitektó skelfur enn og er að ná sér niður af kvíðakasti, Nighthawk gleymdi húfu og vettlingum í bíó og Psycho er enn að ná röddunum úr bíó úr höfðinu sínu.

laugardagur, mars 12, 2005

Jens-Pétur

Vikan hefur farið í undirbúning fyrir próf sem ég tek fyrir páska. Við Bertrand höfum verið að læra saman og reynt að fikra okkur í gegnum Financial accounting. Við vorum á 6. hæð á horni Gasverksvej og Istedgade. Bertrand hafði haft samband við föður sinn, hann Jean-Pierre, og beðið hann um að koma og hjálpa okkur. Jean-Pierre er 63 ára fyrrverandi aero-engineer. Veit ekki alveg um hvað það snýst en það er ávísun á stærðfræðikunnáttu. Jean-Pierre mætti á svæðið, frekar móður eftir 6 hæðirnar. Hann tók af sér frakkann og trefilinn bað um kaffi og var frekar þurr á manninn. Hann leit yfir það sem við höfðum gert og og hló lágt. Svo las hann yfir æfinguna og fékk sér rettu. Svo byrjaði hann að útskýra, aðallega á frönsku þó svo hann talaði gallalausa ensku. Eftir mikið handapat, útskýringar og 6 rettur í viðbót, leit hann á mig og spurði: "Did you get this?" Nei það gerði ég ekki. Við eyddum 4 tímum í þetta og hann hafði sett þetta allt öðruvísi upp en ætlast er til af okkur. Við létum hann vita af því að okkur hefði verið kennt þetta á annann hátt. Hann fussaði bara yfir því, sagði það ekki standast og rauk svo í smók. Ekki það að hann hefði gert þetta vitlaust, bara ekki á þann hátt sem ætlast er til af okkur. Við ákváðum að láta bara hér við sitja og skella okkur í bíó. Við vorum rétt komnir fram á gang þegar Jean-Pierre kveikti sér í rettu. Frá Istedgade niður á Höfuðbana reykti hann tvær í viðbót áður en hann hvarf.
Þegar hann var farinn sagði Bertrand mér að hann hefði fundist við vitlausir og metnaðarlausir. Bertrand var frekar pirraður á þeim gamla. Ég hugsa að við gerum þetta bara sjálfir næst.

miðvikudagur, mars 09, 2005

Týndi hlekkurinn?...

...Neibb, aldeilis ekki. Vil þakka blogvinum mínum fyrir frábær viðbrögð við síðuklístrun. Helst langar mig að gefa ykkur öllum Tívolílurk og der. Eða jafnvel bara bjóða ykkur öllum í pulsupartý, andskotinn hafi það.

Sérstaklega vil ég þó þakka Ólafi BEinarssyni fyrir sína klístrun. Skv. síðustu könnun Gallups um umferð um íslenskar vefsíður þá var þessi síða í 3. sæti á eftir vísi.is og mbl.is. Ég mun launa klístrun með klístrun, svo allir rati nú til baka.

þriðjudagur, mars 08, 2005

Annað mál.

Mér þætti vænt um ef einhver sem slysast hingað myndi vilja hlekkja þessa síðu við sína.
Fann nefninlega allt í einu fyrir einhverju tilgangsleysi með þessu.

Titill

Já, það var fjör í partýi um helgina. Við Haukur buðum Bertrandi í mat og létum hann elda! Sniðugir þar. Frosnar, rauðvínsmarineraðar kjúklingabringur úr Nettó á síðasta söludegi urðu fyrir valinu ásamt frönskum a la Haukur (opna poka, hella á bakka). Fransmaðurinn átti nú ekki í vandræðum með að töfra fram dýrindis máltíð úr þessu. Við Haukur stóðum hjá og reyndum að læra af Fransmanninum. Svo var partý í Köben en samt vorum við nær Malmö heldur en Nörreport, skrítið en næstum satt. Að því tilefni fannst mér kjörið að öskra í sænska símann svona þrisvar, til að vera viss um að ekkert væri eftir. Svona langlínusímtöl eru ávísun á erfiðan dag daginn eftir. Það stóðst.

Í tíma í dag sat ég með Solo, Bertrand og Óla. Solo spurði Óla hvort hann mætti fá lánaða tölvuna hans í smá stund. Ekki málið. Solo tók niður adressubarinn á netinu (þar sem maður slær inn slóðir) og þar stóð ebonyzyrup.com. Ég sagði Solo að tékka nú á þessu. Hann var alveg grænn og gerði það. Upp kom e-r massa svertingjaklámsíða. Þetta þótti mér fyndið því við sátum ca. neðst í fyrirlestrarsalnum og þ.a.l. voru nokkrir sem sátu fyrir ofan okkur.

Solo, sem er svartur, spurði mig í dag: "Do you know what I will be when I finish my B.S." "No", svaraði ég. "An upgraded negro". Þetta fannst mér líka vera fyndið.

Já ekki hægt að segja annað en að það sé létt í manni hér í Sjuppen. Næsta verkefni er að fara og reyna að skafa kjúklingarestina af pönnunni frá því á laugardag. Við gerum stundum tilraunir með það hversu langann tíma það tekur fyrir lykt mismunandi hráefna að komast yfir í hinn endann á íbúðinni eftir eldun. Vinningshafinn er enn grjónagrauturinn sem við gleymdum á hellunni þegar við fórum í 5 daga til Árósa. Bleikur grjónagrautur er sko ekkert grín get ég sagt ykkur.

laugardagur, mars 05, 2005

Laugardagur til lukku?

Já, þetta er erfitt. Fór í tíma í morgun kl. 8.55 sem mér þykir ekkert sélega kristilegt á laugardagsmorgni. Fyrirlesturinn var erfiður og stóð yfir í 4 tíma. Góð byrjun á góðum degi, ha!
Ég hlakkaði nú til samt að fara að spila leik sem ég var klára. Mótherjarnir voru engir aðrir en ellismellirnir í BK Rosen. Við rústuðum leiknum en ég spilaði líklega lélegasta leik sem ég hef á ævinni spilað. Ég skoraði eitt stig á 25 mínútum. Hitti ekki úr einu þriggja en skaut ca. 10 skotum. Hitti ekki úr einu lay-öppi en tók ca. 10 slík líka. Já ég var hetja dagsins. Það versta var að maðurinn sem var að dekka mig var um sextugt. Þetta var fyrsti laugardagsleikurinn sem ég spila ótimbraður. Ég hugsa að ég mæti bara fullur næst. En nú eru svo tvö Partý í kvöld, partý,partý! Það dugir því ekkert minna en 4 rauðví,n (þær voru á pakkatilboði) bjór og gin.
Aldrei að vita nema maður setji eina þriggja í kvöld á danska vísu?

föstudagur, mars 04, 2005

Djöfull er þetta gaman maður.

blogprófun

Þetta var spurning um að skella sér upp í skóla og reyna að lesa aðeins eða koma sér upp svona blogi. Verst hvað það tók stuttan tíma að gera þetta, ég hélt það tæki miklu lengri tíma. Ég neyðist víst til að fara á bókasafnið núna.